Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hver á rigninguna ?

lower_cascade18

Eitt er það, sem fullvíst má telja, en það er sú staðreynd að jörðin býr ekki yfir ótakmörkuðum hráefnum og auðlindum.  Fyrst voru fiskarnir í sjónum teknir af okkur landsmönnum og þar með mikið af fjármunum, allt undir fána skynsemisnýtingar, sérhagsmunaréttinda og kvóta. Eini atvinnuvegurinn á Íslandi sem fær hráefni sitt án greiðslu. Og öllum er nákvæmlega sama. Kvóta-kóngar skapa svo mikinn gjaldeyri. Þetta fyrirkomulag er svo “þjóðhagslega hagkvæmt”. 

Í dag er að verða til þjóðflokkur sem heitir vatnsrétthafar. Ef það rennur á um land þitt, þá ert þú lesandi góður nú þegar orðinn smávegis loðinn um lófana. En ef það rennur stór og vatnsmikil á, þá ert þú dottinn í stóra lukkupottinn, þ.s ef hægt er að virkja hana og búa til rafmagn.  Vatnsrétthafar, sem eiga land að Kárahnjúkastíflu, óska eftir að fá greitt um 100 miljarða fyrir afnot  Landsvirkjunar af vatninu, sem býr til rafmagnið handa álveri ALCOA.  Landvirkjun metur kröfu vatnsrétthafa á um 350 miljónir. Það ber mikið á milli þessara aðila,  ca, 99 miljörðum og  öðrum 650 litlum miljónum.  Gera má ráð fyrir að, ef vatnsrétthafar fái einhvern hluta af sinni kröfugerð samþykktan að hin lága arðsemiskrafa Landsvirkjunar sé fokinn út um mela og steina. Ef litið er til Noregs þar sem dómar hafa fallið í vatnsréttarmálum, þá má fastlega gera ráð fyrir að Landvirkjun þurfi að greiða talsverða fjármuni í vatnsréttarbætur. 

Ég tel að það sé einungis tímaspursmál hvenær kröfugerð berst frá Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og jafnvel Sameinuðu þjóðunum. Þessir aðilar eiga verulegan hlut í öllu þessu vatni sem til hefur fallið hér á landi undanfarin eittþúsund ár.  

Semsagt, hver á eiginlega rigninguna ??? 

 


Framsókn með 15,0 % fylgi. Kom erlendis frá.

Lausnin er fundin varðandi fylgistap Framsóknarflokksins í skoðannakönnunum.

ÞAÐ GLEYMDIST AÐ HRINGJA TIL KANARÍ.  

Sjá frétt af Vísir hér á eftir;

"Framsóknarmenn eru hlutfallslega miklu fleiri á Kanaríeyjum en á Íslandi. Þeir fylgjast vel með og lýst ekki á blikuna sé horft til skoðanakannana. "Hér er mikið fjör í pólitíkinni alla vega meira fjör á framsóknarfundum hér en heima," segir Sturla sem er í stöðugu sambandi við forystu flokksins - sem nú horfir suður á bóginn og veltir fyrir sér þessari óvæntu vakningu á sólarströndinni".

Síðan er stór spurning hvort að eigi að senda kjörkassana frá Las Palmas niður á ensku ströndina. "Áfengi og stjórnmál" eiga ekki samleið enda eru fundirnir haldnir á Klörubar.

"Ég vil taka það fram, að það er vegna pólitískra hitamála og menn missa sig stundum í að nota óviðeigandi orðalag. Að sjálfsögðu er hér mikið af eldra fólki og öryrkjum, sem hafa mikilla hagsmuna að gæta. Okkur hér finnst fyrir neðan allar hellur að geta ekki kosið hér í maíkosningunum nema að fara í dagsferð til Las Palmas. Bráðnauðsynlegt er að flytja kjörkassa niður á ensku ströndina, þar sem allir Íslendingarnir eru."


1000 dollara andlitið.

Árið 1972, gerðist það í hatrammri kosningabaráttu milli George McGovern og Nixon, að  McGovern, sem var langt á eftir Nixon í fylgi tók upp á því nokkrum vikum fyrir kosningar að lofa hverjum og einum Bandaríkjamanni, 1000 dollurum ef hann næði kjöri og yrði þar með næsti forseti landsins.

 

Það sem gerðist var að almenningur sá í gegnum þetta kosningaloforð enda hræddur við afleiðingarnar, verbólgu og minnkandi kaupmátt.

 

Nú fer í hönd kosningabarátta og það er ljóst að fjöldamörg kosningaloforð verða gefin af stjórnmálaflokkunum til handa almenningi. Öllum þessum loforðum fylgir verðmiði. Verðbólgan í dag er á milli 5-6 %. Mér hrýs hugur við að frá haustmisseri komist verbólgan í 8-9 % og jafnvel í tveggja stafa tölu árið 2008.

 

Meginþorri almennings býr við verðtryggð “annuitetslán”  og það er mjög mikilvægt að halda verðbólgu niðri og þá undir 3 % og viðhalda áframhaldandi kaupmætti. Ef ekki, þá er “veislan” búin.

 

Þegar þú kjósandi góður sérð 1000 dollara andlitið á sjónvarpsskjánum, vinsamlegast vertu á varðbergi eða slökktu á sjónvarpinu áður en áróðurinn heltekur þig.

 

Meira seinna þegar nær dregur.


Svissneski frankinn og framtíðarlandið.

Undanfarið hefur mikið verið rætt opinberlega um að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru. Fordómalaus og opinská umræða er nauðsynleg í þessu tilliti en jafnframt er ljóst að það mun líða mjög langur tími, þangað til að erindrekar Íslands taka sér búsetu í Brussel.  Staðreynd málsins er sú að Ísland uppfyllir ekki nema litin hluta af  grundvallarskilyrðum inngöngu í EB og þar falla undir m.a mikill viðskiptahalli og verðbólga. Það góða við málið er að við getum leiðrétt þetta, ef vilji er fyrir hendi . Það er því freistandi að segja já og amen enda er búið að sýna almenning fram á, að verðlag á matvælum er miklu hærra hjá okkur Íslendingum en í nágrannalöndunum og þetta á einnig við um  húsnæðislánin okkar. 

Nýlega reiknuðu tveir hagfræðingar, Bjarni Már hjá Samtökum Iðnaðarins og Ólafur Darri hjá A.S.Í, hvað íslenska krónan kostar okkur.  Þeir notuðu sem forsendur fyrir sinn útreikning 3 % vaxtamun á milli Íslands og EB en þess má þó geta að bankastjóri L.Í hefur nefnt nýverið að hann sé í kringum 2,20 %. Niðurstöður útreiknings hagfræðingana hljóðar upp á 37 miljarða vaxtaálag sem heimilin landsins þurfa að greiða  og við getum því kallað, vaxtaálag okkar vegna krónunnar. Þetta reiknast um krónur 500.000,-  fyrir venjulega fjölskyldu. Samkvæmt áðurnefndum útreikningum kostaði krónan fyrirtækjum í landinu einnig 35 miljarða á ári. Þetta er því samtals 72 miljarðar á ári sem fyrirtæki og einstaklingar greiða í vaxtaálag samkvæmt þessum forsendum. Einnig er áætlaður kostnaður við gengisvarnir sem nemur 5-28 miljörðum árlega. Líklegast þurfum við að búa við þessi skilyrði í 10 til 20 ár í viðbót þangað til þjóðin gengur í EB. Því miður hrýs mér hugur við skrifræðinu í Brussel og reglugerðunum. 

Það sem væri mesta kjarabótin fyrir lífskjör almennings og rekstur fyrirtækja er önnur mynt en krónan. Það er alltaf horft til Evrunnar og myntbandalags Evrópu í þessu sambandi og þá fylgir EB í pakkanum. Hvers vegna opnum við ekki augun fyrir fleiri möguleikum. Væri ekki raunhæfur möguleiki fyrir Íslendinga að taka upp Svissneskan Franka. Til þess að svo mætti verða, þyrfti að semja við Svisslendinga en af því höfum við talsverða reynslu í gegnum EFTA samstarfið um áratuga skeið. 

Svissneski frankinn er fimmti mikilvægasti gjaldmiðill heimsins á eftir dollara, evrunni, yeni og pundi. Í Sviss búa 7 miljónir manns og verðbólga er 1 % en verðbólgumarkmið svissneska seðlabankans eru 2%. Hagvöxtur er áætlaður 3 % fyrir árið 2007. Um 11 % af þjóðarframleiðslunni kemur frá fjármálageiranum. Hagkerfið er stöðugt og laust við allar öfgar. 

Svisslendingar neituðu aðild að EES samningnum 1992 en margir litu á þann samning sem biðstofu fyrir EB aðild. Þeir neituðu síðan aftur inngöngu í EB 2001. Í dag viðurkenna jafnvel skriffinnarnir í Brussel að það muni líða 10-20 ár í inngöngu Svisslendinga í EB. Fjármálageirinn í Sviss hefur verið mjög áhrifamikill í þessari umræðu og verið á móti aðild, þ.s það mundi að sjálfsögðu þýða endalok frankans. 

Væri ekki raunhæft að skoða þessa hugmynd fyrir alvöru, öllum á Íslandi til hagsbóta. Það er ljóst að krónan er að fara mjög illa með almenning og fyrirtækin í landinu. Það er einungis pólitísku vilji sem þarf og viljinn verður kannski til ef almenningur þrýstir á pólitíkusana. Ég sé allaveganna ekkert nema kosti við þessa hugmynd. Kannski greiði ég 14 franka fyrir bíómiðann eftir 2-3 ár og lækka greiðslubyrðina af húsnæðisláninu um 280 franka á mánuði ásamt því að sjá lánsfjárhæðina lækka. Hvur veit.          


Varamaðurinn mættur

Sturla samgöngumálaráðherra mun greinilega ekki taka þátt í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hann hefur skipt inná varamanni eins og sjá má á heimasíðu Alþingis.

"13.03.2007. Í upphafi fundar 12. mars tók Guðjón Guðmundsson sæti sem varamaður Sturlu Böðvarssonar."

Sturla er semsagt kominn í frí í USA og er væntanlega að stúdera ráðstefnugögnin í sólinni. Líklegast ekki nennt að reka síðasta naglan í fleigið svona rétt fyrir kosningar.


"Wanted" : Samgöngumálaráðherra.

Undanfarið hafa margvíslegar utanlandsferðir hinna ýmsu ráðherra vakið undrun ef ekki hneykslan hins almenna borgara.

 

Eftir áramót stendur hið háttvirta Alþingi Íslendinga yfir í 8 vikur og væntanlega lýkur því á morgun. Og hvar er Sturla Böðvarsson , samgöngumálaráðherra ?

Jú, hann fór á ráðstefnu til Bandaríkjanna í síðustu viku og spurning hvort hann verður viðstaddur eldhúsdagsumræður sem fara fram í kvöld. Kannski verður hann mættur, kemur í ljós í kvöld. Um hvað fjallaði ráðstefnan – “Markaðssetning skemmtiferðaskipa”. Er ekki til nóg af slíkri sérþekkingu á landinu !  Vill ég benda á markaðsdeild Faxaflóahafna í þessu sambandi. En Reykjavík tekur á móti langflestum skemmtiferða skipum sem koma til landsins.

 

Síðan má einnig minnast Afríku reisu Frú Valgerðar þ.s hún ásamt 3-4 starfsmönnum utanríkisráðuneytisins fóru til Uganda og síðan í kaffiboð til Sigríðar Dúnu sendiherra. Með í för voru einnig kvikmyndatökumenn Íslenska ríkissjónvarpsins.

 

Ég hef svo sem ekkert við það að athuga að ráðherrar fari á ráðstefnur ef hægt er réttlæta það fyrir almenning. Það væri hinsvegar heppilegra að það gerðist utan hins stutta og hefðbundna starfstíma Alþingis.


Framsóknarsjóður háttvirts ráðherra.

Athyglisverða grein má sjá hjá bloggvini mínum Þorsteini sjá hér.

Svo virðist sem framkvæmdarsjóður aldraða hafi verið misnotaður af heilbrigðisráðuneytinu. Eins og flestir vita sem gera skattskýrslu þá greiðir mikill meirihluta landsmanna í þennan sjóð og er sjóðurinn orðinn anzi digur. Nú berast fréttir af því í kjölfar fyrirspurnar Ástu Ragnheiðar alþingismanns til Sivjar Friðleifsdóttur framsóknarráðherra að framkvæmdasjóður hafi verið misnotaður. Ef mig misminnir ekki þá fjallar reglugerð um sjóðinn á þann veg að sjóðinn eigi eingöngu að nota til uppbyggingu,viðhalds,rekstur o.s.f á þjónusturýmum fyrir aldraða. 

Svo virðist sem þetta hafi verið brotið og kallast því lögbrot. Búið er að greiða úr sjóðnum talverða fjármuni í óskyld verkefni án þess að heimild hafi verið fyrir hendi samkvæmt upplýsingum sem Ásta Ragnheiður fékk í hendur frá hinu háttvirta ráðuneyti. Eitthvað virðist bókhald ráðuneytisins vera í ólagi þar sem ráðuneytið ber fyrir sig að gögn hafi týnst og þeim hafi jafnvel verið eytt !  Fyrir misseri síðan kom upp hneykslismál hjá Byrginu , þ.s rekstur og bókhald var í miklu ólagi og grunur lék á að ílla væri farið með fé almennings. Ríkisendurskoðun var sett í málið með hraði og skilaði af sér skýrslu hratt og örugglega. Forstöðumanni var vikið frá og rekstrinum hætt.  Er það ekki orðin spurning hvort að ríkisendurskoðun fari í  "endurskoðun" á framkvæmdarsjóði aldraða sem fyrst.

Það er í raun siðferðisleg spurning hvort að það sé grundvöllur fyrir framsóknarráðherrann að hefja sína kosningabaráttu nema að gera hreint fyrir sínum dyrum varðandi þetta mál. Einnig hlýtur framsóknarflokkurinn í heild sinni að bera ábyrgð og moka flórinn.


Framsóknarblús

Eygló Harðar, Vestmannaeyjamær skrifar í bloggi sínu um helgina, pistil til varnar Frú Valgerði. Titill pistilsins er “Froðufellandi framkvæmdarstjóri ÞSSÍ” en þar vísar hún í samtal sem fréttamaður útvarpsins átti við Sighvat framkvæmdarstjóra ÞSSÍ og Sendi-herra.

 

Því verður ekki neitað að Sighvati var ansi mikið niðri fyrir en lái honum hver sem vill, Sighvatur var að fá fréttir um að stofnunin sem hann ber ábyrgð á, ætti að leggja niður og fella inn í utanríkisráðuneytið sem undirdeild.  Vekur þessi tímasetning furðu af hálfu ráðuneytisins að birta þessar upplýsingar opinberlega,  þegar forstöðumaðurinn er staddur í miðjum frumskógi Afríku og varla í símasambandi eins og heyra mátti af skruðningum sem voru á línunni í áðurnefndu viðtali.

 

Hitt er svo annað mál og lýsir jafnframt fyrri verkum hjá Frúnni að þessi stefnumótunarvinna er mjög ómarkviss. Það er verið að eyða peningum skattborgarana í vinnu sem er nánast marklaus. Það kom fram hjá Frúnni í blaðaviðtali að það var aldrei stefnan að semja um málið frumvarp, enda einungis ein vika eftir af þingi.

 

Nú er það svo að Framsóknarflokkurinn mun enda með 7-10 % fylgi í næstkomandi kosningum, þrátt fyrir mikla baráttu að koma sér ofar (tilvonandi kosningaloforð). Því miður er brautin þyrnum stráð, brostin og brotin kosningaloforð fyrri ára, valda og hagsmunapot sem kjósendur munu ekki fyrirgefa “FLOKKNUM”.  Það kemur því í hlut nýrra valdhafa að fara með lyklavöldin í utanríkisráðuneytinu og með nýjum manni koma nýir vindar og að öllum líkindum verður öll þessi vinna til einskis.

 

Hversu oft höfum við kjósendur ekki séð þetta leikrit áður ?  


Khodorkovsky kallar á hjálp.

Ég horfði á viðtal við lögfræðing Mikhail Khodorkovsky í kastljósi gærkvöldsins hjá Rúv.  Þar kom ýmislegt fram í dagsljósið sem ég hafði áður nefnt og skrifað um hér á blogginu. ( Sjá Rússland og Pútín,14.12). 

Merkilegt er að Pútín sé búinn og hafi tekist að kæfa alla stjórnarandstöðu. Lögfræðingurinn taldi að komandi kosningar í Rússlandi  yrðu alls ekki lýðræðislegar, heldur frekar krýning á nýjum valdhafa. Síðan heldur sama valdastéttin um lykla og peningavöld í Gazprom og Rosneft en þessi stærstu fyrirtæki Rússlands eiga gífurlega fjármuni sem hægt er spila með. 

Það verður fróðlegt að sjá hvort utanríkisráðherra, eða staðgengill hennar muni hitta lögfræðingi M.K. Þar sem “Frúin” er nýkomin eða er á leiðinni frá S.Afríku, þá ætti hún að hafa lært eitt og annað í þeirri ferð um mannréttindi. Eða ætla íslensk yfirvöld að blessa jarðaför Mikhail Khodorkovsky. Hann átti þess að kost að losna úr fangelsi bráðlega en sú fangelsisvist hefur staðið yfir í tæp 4 ár. Nú hafa Pútin dátar búið til nýjar fals-ákærur þannig að “Gúlagið hið nýja” mun gleypa hann. 

Jafnvel skrifstofuveldið í Brussel hefur mótmælt þessum nýju ákærum.Hvað gerir Frúin !  Eða hvað segja hinir henni að gera ?   

Mikhail Khodorkovsky er hetja. Hann flúði ekki af hólmi með auðæfi sín til vesturlanda. Hann valdi það að mæta Pútín og hans kerfi þó að hann grunaði afleiðingarnar. Hann er holdgerfingur lýðræðis. Það þarf mikið hugrekki og æðruleysi að berjast fyrir réttlætinu. Hann hefur þetta allt. Spurningin er -   hvað gerum við íslendingar ?  


Maó formaður

Las um helgina nokkur fréttabréf um fjárfestingar sem ég er áskrifandi af. Í einu þeirra var verið að ræða um kínverska hlutabréfamarkaðinn. Sérstaklega var verið að mæla með kaupum á ákveðnu kínversku fyrirtæki sem sérhæfir sig í dreifingu auglýsinga. Nýlega var þetta fyrirtæki skráð á N.Y.S.E. Berum saman U.S.A og Kína. Í dag er verið að setja LCD skjái í alla leigubíla í N.Y og CBS sjónvarpstöðin í San Fransisco lætur stimpla logóið sitt á egg sem seld eru neytendum.  Í Kína var ekki til auglýsendamarkaður fyrir 15 árum. Eina sem sást á veggjum í fyrirtækjum og opinberlega var mynd af Maó formanni. Sumir stálust þau til að eiga litla mynd af Mikka Jordan og sú mynd var verðmetin sem jafngildi dagslauna verkamanns. Ekki lengur. Fyrir nokkrum árum þá var ungur kínverskur maður á leiðinni upp í lyftu í stórhýsi og fékk hann skyndilega þá hugmynd að það væri mjög góð hugmynd að setja upp videó skjái í lyftum. Hann lét þessa hugmynd verða að veruleika og í dag eru 75.000 skjáir í gangi sem auglýsa vestrænan lúxus varning til hinnar ört vaxandi kínversku miðstéttar og fyrirtækið er verðmetið á 50 miljarðar.ísk.kr. En þess má geta að mánaðarlaun verkamanns eru 6-8 þús.ísk.kr. Þetta er víst nýsköpunin í Kína og það er rétt nýbúið að sá fræinu. Það eru fleiri atvinnugeirar að gera virkilega vel. Innlendur ferðamannaiðnaður blómstrar og sumar hótelkeðjurnar raka saman peningum þar sem bókunarhlutfall er ekki undir 95 prósentum. Tryggingarfyrirtæki eiga góða tíma í vændum enda er ekki nema 3 prósent þjóðarinnar með einhverjar tryggingar fyrir áföllum á við líf og sjúkdóma, slysa eða skaða á húsnæði. 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband