21.3.2007
Svissneski frankinn og framtíðarlandið.
Undanfarið hefur mikið verið rætt opinberlega um að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru. Fordómalaus og opinská umræða er nauðsynleg í þessu tilliti en jafnframt er ljóst að það mun líða mjög langur tími, þangað til að erindrekar Íslands taka sér búsetu í Brussel. Staðreynd málsins er sú að Ísland uppfyllir ekki nema litin hluta af grundvallarskilyrðum inngöngu í EB og þar falla undir m.a mikill viðskiptahalli og verðbólga. Það góða við málið er að við getum leiðrétt þetta, ef vilji er fyrir hendi . Það er því freistandi að segja já og amen enda er búið að sýna almenning fram á, að verðlag á matvælum er miklu hærra hjá okkur Íslendingum en í nágrannalöndunum og þetta á einnig við um húsnæðislánin okkar.
Nýlega reiknuðu tveir hagfræðingar, Bjarni Már hjá Samtökum Iðnaðarins og Ólafur Darri hjá A.S.Í, hvað íslenska krónan kostar okkur. Þeir notuðu sem forsendur fyrir sinn útreikning 3 % vaxtamun á milli Íslands og EB en þess má þó geta að bankastjóri L.Í hefur nefnt nýverið að hann sé í kringum 2,20 %. Niðurstöður útreiknings hagfræðingana hljóðar upp á 37 miljarða vaxtaálag sem heimilin landsins þurfa að greiða og við getum því kallað, vaxtaálag okkar vegna krónunnar. Þetta reiknast um krónur 500.000,- fyrir venjulega fjölskyldu. Samkvæmt áðurnefndum útreikningum kostaði krónan fyrirtækjum í landinu einnig 35 miljarða á ári. Þetta er því samtals 72 miljarðar á ári sem fyrirtæki og einstaklingar greiða í vaxtaálag samkvæmt þessum forsendum. Einnig er áætlaður kostnaður við gengisvarnir sem nemur 5-28 miljörðum árlega. Líklegast þurfum við að búa við þessi skilyrði í 10 til 20 ár í viðbót þangað til þjóðin gengur í EB. Því miður hrýs mér hugur við skrifræðinu í Brussel og reglugerðunum.
Það sem væri mesta kjarabótin fyrir lífskjör almennings og rekstur fyrirtækja er önnur mynt en krónan. Það er alltaf horft til Evrunnar og myntbandalags Evrópu í þessu sambandi og þá fylgir EB í pakkanum. Hvers vegna opnum við ekki augun fyrir fleiri möguleikum. Væri ekki raunhæfur möguleiki fyrir Íslendinga að taka upp Svissneskan Franka. Til þess að svo mætti verða, þyrfti að semja við Svisslendinga en af því höfum við talsverða reynslu í gegnum EFTA samstarfið um áratuga skeið.
Svissneski frankinn er fimmti mikilvægasti gjaldmiðill heimsins á eftir dollara, evrunni, yeni og pundi. Í Sviss búa 7 miljónir manns og verðbólga er 1 % en verðbólgumarkmið svissneska seðlabankans eru 2%. Hagvöxtur er áætlaður 3 % fyrir árið 2007. Um 11 % af þjóðarframleiðslunni kemur frá fjármálageiranum. Hagkerfið er stöðugt og laust við allar öfgar.
Svisslendingar neituðu aðild að EES samningnum 1992 en margir litu á þann samning sem biðstofu fyrir EB aðild. Þeir neituðu síðan aftur inngöngu í EB 2001. Í dag viðurkenna jafnvel skriffinnarnir í Brussel að það muni líða 10-20 ár í inngöngu Svisslendinga í EB. Fjármálageirinn í Sviss hefur verið mjög áhrifamikill í þessari umræðu og verið á móti aðild, þ.s það mundi að sjálfsögðu þýða endalok frankans.
Væri ekki raunhæft að skoða þessa hugmynd fyrir alvöru, öllum á Íslandi til hagsbóta. Það er ljóst að krónan er að fara mjög illa með almenning og fyrirtækin í landinu. Það er einungis pólitísku vilji sem þarf og viljinn verður kannski til ef almenningur þrýstir á pólitíkusana. Ég sé allaveganna ekkert nema kosti við þessa hugmynd. Kannski greiði ég 14 franka fyrir bíómiðann eftir 2-3 ár og lækka greiðslubyrðina af húsnæðisláninu um 280 franka á mánuði ásamt því að sjá lánsfjárhæðina lækka. Hvur veit.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:11 | Facebook
Athugasemdir
Hér vantar að gera grein fyrir á hvern veg upptaka franka, eða annars gjaldmiðils, stuðlar ad lægri vöxtum - eða öllu heldur lægri vaxtamun. Fátt, ef nokkuð, kemur í veg fyrir að erlendar fjármálastofnanir hasli sér völl á íslenskum lánamarkaði. Stærri íslensk fyrirtæki hafa þegar aðgang ad erlendu lánsfé - stundum hin minni einnig - og all margir Íslendingar eru þegar með sín húsnæðislán skráð í erlendri mynt. Reiknimeistarar S.I. og A.S.Í. gætu allt eins komist að annarri niðurstöðu ef forsendurnar væru aðrar en þeir lögðu upp með. Að festa íslenska mynt við erlenda getur falið í sér kosti og galla og vert að gera sér grein fyrir göllunum einnig, en ekki bara telja upp sannanlega og ímyndaða kosti ... sjáumst í bíó
Ólafur Als, 21.3.2007 kl. 13:58
Ég hef verið hlynntur því að kíkja á fordæmi Svisslendinga varðandi samninga við ESB. Ég þarf að melta þetta aðeins betur með frankann þeirra.
Haukur Nikulásson, 21.3.2007 kl. 23:56
Sæll Haukur,
Ég hef ekki kynnt mér hvernig tvíhliða samning Svisslendingar hafa við ESB. Kannski getur einhver bloggari upplýst okkur um þau mál. Hinsvegar tel ég skynsamlegt fyrir okkar Íslendinga að skoða þessa hugmynd þar sem mikið óhagræði er af gengissveiflum og lykilfyrirtæki gætu jafnvel flutt af landi brott. Varanlegur stöðugleiki er mikilvægastur en ég tel að við náum honum ekki með krónuna sem gjaldmiðil. Að öðru leyti er þetta það viðamikið að erfitt er að útskýra málið í fáum orðum.
Birgir Guðjónsson, 22.3.2007 kl. 00:45
Gengissveiflur eru ekki annað en ventill á milliríkjaviðskipti og styrk efnahagslífs. Ef efnahagur tveggja landa sveiflast í takt getur verið hagræði af að tengja gjaldmiðla þeirra, ef ekki, skapast ójafnvægi í öðru landanna. Hér mætti hafa langt mál en vert að minnast þess að gjaldmiðill er um flest afleidd stærð en ekki gerandi í gangverki efnahagslífsins. Stöðugleikinn fæst ekki med fegrunaraðgerðum á borð við að taka upp erlendar myntir, heldur að ná stjórn á efnahagsmálum heima fyrir.
Mikilvægt er að halda lykilfyrirtækjum í landi og hafa aðgerðir stjórnvalda til þessa tryggt að þau hafi fengid að dafna og með hagstæðu skattaumhverfi ytt undir að þau héldust skráð hérlendis. Vonandi er ekki verið að leggja til að einstakra stórfyrirtæki kúgi yfirvöld til hlyðni.
Ólafur Als, 22.3.2007 kl. 06:36
Ólafur, Ég spyr þig, hvers vegna er ekki stöðugleiki hér á landi. Held að þú hafir ekki lesið pistilinn nema með hálfum huga, miðað við svör þín hér á undan. Krónan er stór orsök og mikill áhrifavaldur. Sveiflurnar hafa verið mjög miklar og þetta óstöðuga gengi hefur kallað á víxlverkun vaxtahækkana, gengisstyrkingar og þar af leiðandi óstöðugs fjármagnsflæðis. Varðandi skattaumhverfið þá má bæta um betur og reyna að skapa á Íslandi besta skattaumhverfi í Evrópu og draga til sín erlenda fjárfesta.
En þá kemur alltaf sama vandamálið, ÍSLENSKA KRÓNAN.
Held samt sem áður, að lokaniðurstaðan sé sú að ef þessar krónu-sveiflur halda áfram þá þýðir það versandi samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja og þau yfirgefa landið. Skattaumhverfi mun ekki vera mesti áhrifavaldurinn. ( Mörg stærri fyrirtækin borga ekki há skatta hvort sem er, kallast skattafrestun).
Varðandi athugasemd nr.1 hjá þér, þá er það rétt að stærri fyrirtæki fjármagna síg á erlendum lánum og jafnvel minni líka. En það kemur óbeint fram í greininni þ.s minnst er á gengisvarnir 5-28 miljarðar.
Annars verð ég að nefna að, ef þú ert stuðningsmaður íslensku krónunnar þá er lang best hjá þér að segja það óhræddur. Þú kemur væntanlega með rök fyrir þínu máli.
Birgir Guðjónsson, 22.3.2007 kl. 20:42
Útreikningar sérfræðinganna eru byggðar á forsendum sem nauðsynlegt er að velta fyrir sér á ymsa vegu. Ef þeirra útreikningar eru þín rök í málinu vantar gagnryna úttekt. Gjaldmiðill er ekki í sjálfu sér gerandi, heldur það sem að baki honum byr. Gengisstaða er afleiðing fjölda efnahagslegra þátta sem virka hver á annan og ef einn er tekinn úr sambandi geta afleiðingarnar verið skelfilegar. Að hafa gjaldmiðil, sem bregst vid aðstæðum, er því nauðsynlegt til þess að spilverkið gangi upp. Að taka upp gjaldmiðil, sem á rætur að rekja í stöðugu efnahagsumhverfi, sbr. Sviss, þjónar ekki hlutverki sínu nema annað komi til og þá erum við komin að kjarna málsins: Ef aðrir þættir efnahagsumhverfisins eru jákvæðir (les: stöðugir) er gjaldmiðillin líklegast einnig stöðugur.
Þessi rök eru sótt í grunnþekkingu á þjóðhagfræðinni án nokkurrar hræðslu og langt í frá með hálfum huga. Með þessu er ekki horft fram hjá því að með upptöku gjaldmiðils á borð við CHF, EUR eða USD er komið í veg fyrir að jafn lítið efnahagskerfi og hið íslenska verður síður fyrir áhrifum spekúlanta á gjaldeyrismörkuðum og ymsu bókhaldslegu óhagræði afstyrt fyrir stórtæk íslensk fyrirtæki á erlendum mörkuðum (reyndar hyrfi það vart við upptöku CHF). Til viðbótar mætti nefna sálræn og táknræn, jákvæð áhrif af slíkri aðgerð en slík áhrif eru á jaðrinum. Allt þetta yrði að vega og meta en ekki láta sér nægja að birta einungis eina hlið, að ekki sé nú talað um að hafa ekki svör við á hvern veg upptaka annars gjaldmiðils ylli vaxtalækkun eða að vaxtamunur minnkaði. Ef við gefum okkur að við séum báðir stuðningsmenn efnahagslegs stöðugleika yrði upptaka annars gjaldmiðils í mínum huga aðallega fegrunaraðgerð. Að vera "stuðningsmaður" íslensku krónunnar hefur væntanlega með tilfinningar að gera, varla efnahagsleg rök. Að öðru leyti er ég, eins og Daninn segir, ligeglad með hverju ég borga í bíó.
Skattaumhverfið er hér með því hagstæðasta fyrir fyrirtæki og fjármagnseigendur í Evrópu, sem hefur m.a. gert að verkum að íslensk útrásarfyrirtæki hafa haldist skrásett hér og tryggt hinu opinbera hærri skattgreiðslur en nokkru sinni fyrr frá íslenskum fyrirtækjum og fjármagnseigendum, og ekki fyrirséð að breytingar verði þar á að óbreyttu. Áttir væntanlega við að draga hingað erlend fyrirtæki? Ef horft er framhjá pólitískum vandkvæðum við að ganga enn lengra í átt að hagstæðu skattaumhverfi fyrirtækja er sjálfsagt að gefa slíku gaum.
Ólafur Als, 22.3.2007 kl. 22:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.