Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
28.12.2007
Svissneski frankinn og Ísland 2008
Fyrr í kvöld var viðtal við Björgólf Thor í hinum vinsæla Kastljós þætti RUV. Þar talaði hann um þann möguleika að íslendingar tækju upp svissneska frankann sem gjaldmiðil. Um þetta málefni, bloggaði ég fyrr á árinu eða þann 21.mars síðastliðinn.
Ég hef ekki heyrt einn einasta stjórnmálamann,fjölmiðil eða einstakling minnast á þennan möguleika fyrr en núna í kvöld. E.t.v hefur Björgólfur lesið þennan pistil minn, hvur veit ! Ég hallast þó frekar að því að þessum raunhæfa möguleika hafi skotið upp í kollinn hjá honum nýlega, enda íslenska krónan hreint og beint ónýtur gjaldmiðill sem lýtur stjórn erlendra vogunarsjóða (jöklabréf) en ekki íslenska seðlabankans eða annarra markaðsafla.
Hér á meðal okkar eru til miklir Evrópusinnar og þar á meðal eru allmargir alþingismenn sem vilja að við göngum strax til samninga við Evrópusambandið og tökum síðan upp evru sem gjaldmiðil. Þetta er því miður ekki raunhæf lausn og allt hjal um þetta draumórar og tímaeyðsla. Raunhæfasta lausnin fyrir okkar örsmáu þjóð er að semja við Svisslendinga og taka upp svissneska frankann, Það samningaferli ætti ekki að taka langan tíma. Þegar þessi skipan er orðinn að veruleika þá er ég fullviss um að orðið "EVRÓPUSINNI" falli niður dautt og verði ekki lengur með skiljanlega merkingu í íslensku máli.
Hér birti ég aftur greinina frá 21.03.2007.
Undanfarið hefur mikið verið rætt opinberlega um að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru. Fordómalaus og opinská umræða er nauðsynleg í þessu tilliti en jafnframt er ljóst að það mun líða mjög langur tími, þangað til að erindrekar Íslands taka sér búsetu í Brussel. Staðreynd málsins er sú að Ísland uppfyllir ekki nema litin hluta af grundvallarskilyrðum inngöngu í EB og þar falla undir m.a mikill viðskiptahalli og verðbólga. Það góða við málið er að við getum leiðrétt þetta, ef vilji er fyrir hendi . Það er því freistandi að segja já og amen enda er búið að sýna almenning fram á, að verðlag á matvælum er miklu hærra hjá okkur Íslendingum en í nágrannalöndunum og þetta á einnig við um húsnæðislánin okkar.
Nýlega reiknuðu tveir hagfræðingar, Bjarni Már hjá Samtökum Iðnaðarins og Ólafur Darri hjá A.S.Í, hvað íslenska krónan kostar okkur. Þeir notuðu sem forsendur fyrir sinn útreikning 3 % vaxtamun á milli Íslands og EB en þess má þó geta að bankastjóri L.Í hefur nefnt nýverið að hann sé í kringum 2,20 %. Niðurstöður útreiknings hagfræðingana hljóðar upp á 37 miljarða vaxtaálag sem heimilin landsins þurfa að greiða og við getum því kallað, vaxtaálag okkar vegna krónunnar. Þetta reiknast um krónur 500.000,- fyrir venjulega fjölskyldu. Samkvæmt áðurnefndum útreikningum kostaði krónan fyrirtækjum í landinu einnig 35 miljarða á ári. Þetta er því samtals 72 miljarðar á ári sem fyrirtæki og einstaklingar greiða í vaxtaálag samkvæmt þessum forsendum. Einnig er áætlaður kostnaður við gengisvarnir sem nemur 5-28 miljörðum árlega. Líklegast þurfum við að búa við þessi skilyrði í 10 til 20 ár í viðbót þangað til þjóðin gengur í EB. Því miður hrýs mér hugur við skrifræðinu í Brussel og reglugerðunum.
Það sem væri mesta kjarabótin fyrir lífskjör almennings og rekstur fyrirtækja er önnur mynt en krónan. Það er alltaf horft til Evrunnar og myntbandalags Evrópu í þessu sambandi og þá fylgir EB í pakkanum. Hvers vegna opnum við ekki augun fyrir fleiri möguleikum. Væri ekki raunhæfur möguleiki fyrir Íslendinga að taka upp Svissneskan Franka. Til þess að svo mætti verða, þyrfti að semja við Svisslendinga en af því höfum við talsverða reynslu í gegnum EFTA samstarfið um áratuga skeið. Svissneski frankinn er fimmti mikilvægasti gjaldmiðill heimsins á eftir dollara, evrunni, yeni og pundi. Í Sviss búa 7 miljónir manns og verðbólga er 1 % en verðbólgumarkmið svissneska seðlabankans eru 2%. Hagvöxtur er áætlaður 3 % fyrir árið 2007. Um 11 % af þjóðarframleiðslunni kemur frá fjármálageiranum. Hagkerfið er stöðugt og laust við allar öfgar. Svisslendingar neituðu aðild að EES samningnum 1992 en margir litu á þann samning sem biðstofu fyrir EB aðild. Þeir neituðu síðan aftur inngöngu í EB 2001. Í dag viðurkenna jafnvel skriffinnarnir í Brussel að það muni líða 10-20 ár í inngöngu Svisslendinga í EB. Fjármálageirinn í Sviss hefur verið mjög áhrifamikill í þessari umræðu og verið á móti aðild, þ.s það mundi að sjálfsögðu þýða endalok frankans. Væri ekki raunhæft að skoða þessa hugmynd fyrir alvöru, öllum á Íslandi til hagsbóta. Það er ljóst að krónan er að fara mjög illa með almenning og fyrirtækin í landinu. Það er einungis pólitísku vilji sem þarf og viljinn verður kannski til ef almenningur þrýstir á pólitíkusana. Ég sé allaveganna ekkert nema kosti við þessa hugmynd.
Kannski greiði ég 14 franka fyrir bíómiðann eftir 2-3 ár og lækka greiðslubyrðina af húsnæðisláninu um 280 franka á mánuði ásamt því að sjá lánsfjárhæðina lækka. Hvur veit. "
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2007
Barnapían
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.12.2007
Voltaren Rapid
Nýlega var ég staddur á Spáni. Það leiðinlegasta við að ferðast eru þessi hræðilega hörðu hóteldýnur sem verða þess valdandi að nætursvefninn verður ekki góður. Þetta rúm-dýnuvandamál virðist vera sérstaklega slæmt hjá hótelhöldurum á Spáni og í Portúgal. Kannski er hótelstjórum í þessum löndum kennt í þarlendum hótel skólum að nauðsynlegt er að láta dýnuna endast í tvo-þrjá áratugi, eða jafnvel lengur !! Ég hef aldrei heyrt í ferðamanni hæla rúminu sínu nema hann sé að koma frá Bandaríkjunum. Hvað um það. Þetta endaði allt með því að ég fór að finna fyrir verk í baki og þá voru góð ráð dýr eða kannski má segja ódýr. Ég skutlaðist inn í næsta apótek og óskaði eftir að fá að kaupa Voltaren Rapid. Ekkert mál, sagði yndisfagra afgreiðslustúlkan á góðri ensku. Hún lét mig hafa pakka með 40 töflum og ég pungaði út 2 evrum fyrir herlegheitin.
Fyrr í kvöld var ég að skoða netsíðu lyfjaafgreiðslunefndar, þar sem öll lyf eru verðmerkt en samkvæmt þessum gögnum, þá kostar Voltaren Rapid verkjalyfið kr.678,- í heildsölu og verð frá apóteki er kr. 1.472,- Þetta gera ca.16 evrur og að auki eru bara 30 töflur í pakkanum. Þannig greiddi ég fyrir 1 töflu kr.4,51 á Spáni en kr.49,0 á Íslandi. Einnig ber að nefna að á Íslandi er þetta verkjalyf, lyfseðilskylt og þjónusta heimilislækna kostar sitt sem mætti þá í raun bæta ofaná 49,- krónu verðið.
Það má ljóst vera að verðlag lyfja og reglugerðir þar af lútandi er aðgerð sem þarf að fara í sem fyrst, neytendum til hagsbóta og síðast en ekki síst, til styrkar heilbrigðiskerfinu sem sífellt berst við stighækkandi kostnað, lokanir deilda og verri þjónustu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2007
Rudy Giuliani í viðtali.
Seinnipartinn í dag, var ég að horfa á NBC-Europe sjónvarpsstöðina, þ.s forsetaframbjóðandinn og fyrrverandi borgarstjóri NY borgar, Rudy Giuliani sat fyrir svörum. Það sem mér þótti athyglisverðast í viðtalinu var aðgangsharka þátta-spyrjandans varðandi persónuleg mál Giuliani. Spyrjandinn var maður um sextugt og hann var greinilega ekki nýbyrjaður í bransanum. Spurningarnar voru hnitmiðaðar og þetta voru ekki hin leiðigjörnu íslensku Seljan skot.
Giuliani svaraði öllum spurningum á öruggan og yfirvegaðan hátt en í viðtalinu viðurkenndi hann ýmis embættis mistök í gegnum tíðina en batnandi manni er best að lifa.
Sem dæmi, þá lét hann lögreglumann fylgja vinkonu sinni (eiginkona í dag) hvert fótmál frá árinu 2000. Þetta var gert vegna líflátshótana og með ráðgjöf lögregluembættis NY borgar. Í þessu tilfelli átti Giuliani að vera að eyða peningum skattborgaranna.
Einnig var spurt út í fyrirtækjarekstur borgarstjórans en hann á stórt og umsvifamikið alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki. Giuliani, sagðist ekki koma nálægt daglegum rekstri en auðvitað væri hann eigandi og sem slíkur bæri hann ábyrgð á rekstrinum. Ekki stendur til að breyta því í framtíðinni að hans sögn.
Giuliani var að lokum spurður út í afstöðu sína til samkynhneigðar. Hann sagðist vera kaþólikki og í sjálfu sér bæri hann virðingu fyrir samkynhneigðum, það væri hinsvegar gjörningar eða framkvæmdir samkynhneigðra sem hann væri mótfallinn. Væntanlega hefur hann átt við kynferðislegar athafnir ! En þarna talaði greinilega pólitíkus og einstaklingur sem er vanur að vera í sviðsljósinu. . Það verður gaman að fylgjast með hinum litríka persónuleika Giuliani á komandi mánuðum og hvernig honum reiðir af í prófkjörinu.
Bloggar | Breytt 15.12.2007 kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)